Listasafn Íslands býður þjóðinni upp á tertur

Útgefið af Tertugallerí Myllunnar þann

Listasafn Íslands fagnar 130 ára afmæli á þessu ári. Haldið verður upp á daginn á sérstökum fjölskyldudegi í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg laugardaginn 18. október. Tertugalleríið hefur af þessu tilefni búið til tertur með listaverkum eftir nokkra meistara íslenskrar myndlistarsögu. Boðið verður upp á terturnar í Listasafninu klukkan 13.

Listasafn Íslands var stofnað í Kaupmannahöfn árið 1884 og fagnar því 130 ára afmæli á þessu ári. Björn Bjarnarson lögfræðingur sem var stórhuga listunnandi stofnaði safnið. Hann stóð sjálfur fyrir söfnun verka safnsins í Kaupmannahöfn, fékk norræna málara til að gefa verk til þess og skipulagði fjársöfnun meðal Íslendinga til að kosta innrömmun verka og flutning þeirra til Íslands. Frá árinu 1885 til 1950 voru verk Listasafnsins til sýnis í Alþingishúsinu. Eftir það fluttist safnið í safnahúsið við Suðurgötu og var þar með Þjóðminjasafni Íslands. Árið 1987 var safnið flutt að Fríkirkjuvegi 7 þar sem það er í dag.

Afmælisfagnaður Listasafnsins hefur staðið yfir í vikunni en frá 16. október og fram á sunnudaginn 19. október hefur allri þjóðinni verið boðinn ókeypis aðgangur að safninu.

Afmælisfögnuðurinn hófst á fimmtudag þegar Vasulka-stofa var formlega opnuð sem ný deild. Í tilefni af því var gefin út bók um hjónin Steinu og Woody Vasulka en þau voru brautryðjendur í vídeólist á sjöunda áratug síðustu aldar. Haldin verður stór innsetning á verkum þeirra í Listasafni Íslands og gestir leiddir um hana.

Í tilefni af afmæli Listasafns Íslands verður laugardaginn 18. október, haldinn sérstakur fjölskyldudagur á Listasafninu við Fríkirkjuveg og er landsmönnum öllum boðið til veislu. Á boðstólum verða afmælistertur og kaffi og fjölbreyttir viðburðir þar sem lögð verður áhersla á samveru fjölskyldunnar. Boðið verður upp á leiðsögn um safnið, Ólafur Ingi Jónsson forvörður og Dagný Heiðdal, deildarstjóri listaverkadeildar, sýna listaverkageymslur Listasafnsins og myndlistargetraun verður fyrir unga sem aldna. Vinningshafi hlýtur vegleg verðlaun. Einnig verður sýnt vídeó-portrett sem listamaðurinn Snorri Ásmundsson hefur tekið af gestum safnsins.

Afmælisboðið hefst klukkan 11:30. Þá mun Hlíf Sigurjónsdóttir, dóttir Sigurjóns Ólafssonar myndlistarmanns, leiða gesti um sýninguna Spor í sandi með æskuverkum Sigurjóns.

Klukkan 13 á laugardag verður afmælissöngurinn sunginn í Listasafninu við Fríkirkjuveg og mun Tertugalleríið bjóða gestum upp á súkkulaðitertur. Á terturnar hafa verið prentaðar myndir úr safni Listasafns Íslands eftir þjóðþekkta listamenn.

Listaverkin sem prýða terturnar eru:

  • Hekla eftir Ásgrím Jónsson
  • Þingvellir eftir Þórarinn B. Þorláksson
  • Tröllabörn í tunglsljósi, eftir Guðmund Þorsteinsson.
  • Sumarnótt eftir Gunnlaug Óskar Scheving.
  • Átrúnaður eftir Guðmundu Andrésdóttur.
  • Á sjónum eftir Gunnlaug Óskar Scheving.
  • Ónefnt grafík-verk eftir Bertel Thorvaldsen.
  • Maður á mótorhjóli eftir Finn Jónsson.
  • Örlagateningurinn eftir Finn Jónsson.
  • Morgunn í Reykjavík, Hverfisgatan eftir Ásgrím Jónsson


Tertugalleríið óskar þjóðinni til hamingju með afmæli  Listasafns Íslands.


Deila þessari færslu



← Eldri færsla Nýrri færsla →